Fréttir


Getur þú hjálpað þegar á reynir?

8.2.2010

112-dagurinn verður haldinn víða um land fimmtudaginn 11. febrúar. Þema dagsins er aðkoma venjulegs fólks að vettvangi slysa, veikinda og áfalla. Viðbragðsaðilar koma sjaldnast fyrstir á vettvang slíkra atburða. Oftast kemur venjulegur borgari fyrst að, tilkynnir um atburðinn og veitir fyrstu aðstoð. Þessi fyrstu viðbrögð geta skipt miklu um afdrif fólks og hvernig til tekst með björgun. Þess vegna er mikilvægt að sem flestir kunni skyndihjálp og treysti sér til að veita hana þegar á reynir.

Margt verður gert til að vekja athygli á deginum og efni hans:
• Gefið verður út 112 blaðið sem dreift verður með Fréttablaðinu 11. febrúar.
• Kynntar verða niðurstöður Gallup-könnunar um skyndihjálparþekkingu landsmanna.
• Fjöldi grunnskólabarna fær fræðslu um skyndihjálp og slysavarnir í tengslum við daginn.
• Viðbragðsaðilar kynna skyndihjálp, slysavarnir og fleira, meðal annars í Smáralind laugardaginn 13. febrúar.
• Móttaka verður í Skógarhlíðinni þar sem viðurkenningar verða veittar fyrir skyndihjálp og verðlaun veitt í Eldvarnagetrauninni.

112-dagurinn er haldinn í fjölmörgum Evrópulöndum þennan sama dag. Samstarfsaðilar 112-dagsins á Íslandi eru Neyðarlínan, ríkislögreglustjórinn, Brunamálastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, landlæknisembættið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Flugstoðir.

Á vef Neyðarlínunnar, 112.is, er að finna áhugavert efni fyrir börn og fullorðna sem tengist deginum. Þar er meðal annars hægt að taka próf í skyndihjálp, skoða myndasýningu og margt fleira.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica